Þetta er spurning sem ég spyr mig helst tvisvar sinnum á ári og tvisvar sinnum á ári vil ég svara þessari spurningu játandi.

Hvíldartímabilið
Auðvitað erum við ekki að tala um að hætta að hlaupa fyrir fullt og allt, eingöngu hvort það sé kominn tími til að hvíla aðeins hlaupin og leyfa sér að taka hvíldartímabil. Við ættum ekki að vera hrædd við að gera ekki neitt en það er oft freistandi að framlengja tímabilið út í hið óendanlega, oft er það vegna þess hve vel gengur en svo er það líka stundum þannig að við erum hrædd við að detta úr formi, einhvernveginn eins og við munum aldrei aftur komast á sama stað í forminu og við vorum á áður. Það er hinsvegar þannig að þegar við höfum einu sinni komist í ákveðið gott form tekur það eingöngu um 4-8 vikur að komast á sama stað aftur, þótt við tökum 2-3 vikna hvíld frá hreyfingu. Auðvitað er það aðeins öðruvísi ef við höfum verið í marga mánuði frá og en samt er formið alltaf merkilega fljótt að koma til baka þegar rétt er staðið að æfingunum.
Ekki vera hrædd við að gera ekki neitt

Aðdragandi að hvíldartímabilinu
Oftast tökum við hvíldartímabil eftir að við höfum klárað aðalhlaup tímabilsins. Þegar þetta hlaup er til dæmis maraþon eða Laugavegurinn mæli ég með því að taka sér alveg 2-3 vikna hvíld til að leyfa andlegu orkunni að koma til baka en líka því að vöðvaniðurbrotið hefur orðið svo mikið að við viljum leyfa vöðvunum að jafna sig og svo nýta fyrstu vikurnar til að vinna aftur til baka styrkinn. Þegar við höfum verið að æfa fyrir styttri vegalengdir er oft í lagi að taka bara 10-14 daga í hvíld því þá er aðalfókusinn á að leyfa andlegu hliðinni að endurstilla sig og leyfa huganum að reika. Á þessu tímabili finnum við okkur oft ný markmið fyrir komandi tímabil en það er stundum erfitt að hugsa um þau þegar við erum að einbeita okkur að núverandi tímabili.
Engin keppni en samt hvíld
Stundum lendum við í því að ná ekki keppninni okkar, hvort sem það er vegna meiðsla, veikinda eða annarra áfalla. Það þýðir þó ekki að við ættum þá að sleppa hvíldartímabilinu. Í það minnsta ættum við að taka hvíldartímabilið þannig að við gerum hluti sem við myndum ekki gera síðustu tvær vikurnar í aðdraganda fyrir hlaup, hvort sem það er að passa minna upp á svefninn eða leyfa okkur meira í mataræðinu. Við viljum nýta þennan tíma til að sleppa aðeins beislinu svo það verði auðveldara að halda aftur af okkur þegar við byrjum aftur að æfa með góðum krafti. Stundum fáum við líka einfaldlega leið á tímabilinu og ef við erum búin að keppa mikið og ná ágætum árangri en finnum ekki löngunina til að mæta í næsta hlaup, þá getur það verið gott merki um að hvíldartímabil sé besta lausnin og mæta síðan fersk aftur til leiks einni til tveimur vikum seinna.
Comments