Það eru tvær vikur liðnar af æfingabúðum í Kenía og það hefur gengið virkilega vel hingað til. Mér finnst ég fyrst núna finna almennilega að líkaminn er að aðlagast þunna loftinu. Sem þýðir að púlsinn er sá sami en skokkið verður hraðara. Ég hef verið mjög passasamur að sofa nóg en ein stærsta breytingin þegar ég eyk æfingamagnið felst í því að ég þarf að sofa meira.
Fleiri æfingar meiri svefn
Þegar hlauparar spyrja mig hvort það gæti verið sniðugt að auka æfingamagnið hjá sér þá er fyrsta spurningin mín til baka hvort að þeir hafi tíma fyrir auka hvíld. Þannig ef við ætlum að bæta við okkur 60 mínútum af æfingum á viku, getur það þýtt auka 60 mínútur af svefn yfir vikuna. Það er því ekki nóg að hafa bara klukkutíma sem við getum nýtt heldur þurfum við oft að hafa tvo tíma á lausu til að geta bætt við okkur einum tíma af æfingum.
Ég er að hlaupa flesta daga tvisvar á dag og alla daga þá legg ég mig í 1-2 tíma. Fyrir utan það er ég að sofa um 8-10 tíma á nóttunni. Það kemur þess vegna alveg fyrir að ég sé sofandi meira en helminginn af deginum. Þetta er ekki eitthvað sem ég geri af því bara, heldur er þetta nauðsynlegt til að líkaminn geti höndlað æfingaálagið og tekið framförum í staðinn fyrir að búa til ofþreytu.
Sofandi að feigðarósi
Mjög skemmtileg millifyrirsögn þó ég segi sjálfur frá. En mér fannst hún viðeigandi. Það er nefnilega þannig að við getum klárlega náð mjög góðum árangri og miklum framförum þrátt fyrir að hundsa svefninn í langan tíma. Hinsvegar ef við gerum það nægilega lengi þá er ég tilbúinn að ábyrgjast að það endi bara á einn veg, sem eru meiðsli eða ofþjálfun.
Ef við viljum ekki horfa á þetta til langtíma og bara reyna við skammtíma árangur þá er svefninn alls ekkert undirstaðan. Þá getum við líka sleppt því að teygja og næring verður ekki eins mikilvæg. Því til skamms tíma eru það nánast bara æfingarnar sem skipta máli. Ég gríp mig sjálfan stundum í þessum hugsunarhætti en þá er gott að minna sig á að lokaniðurstaðan í svona nálgun er ekki eftirsóknarverð.
Einn lítill punktur í lokin. Ef við erum ekki að æfa oftar en tvisvar sinnum í viku þá þurfum við ólíklega auka svefn þó við aukum æfingar. Það sem er líklegra að gerist með fleiri æfiingum er meiri orka yfir daginn og að gæði svefnsins verður betri á nóttunni því líkaminn er tilbúnari til að hvílast.
Comments