Stundum eru fyrstu skrefin þau erfiðustu og jafnvel getur verið ennþá erfiðara að koma sér út um hurðina. Eftir á er æfingin samt alltaf þess virði og nánast undantekningalaust sem henni fylgir góð vellíðunartilfinning.
Ef við gerum ráð fyrir að við munum komast út um hurðina, hvað getum við þá gert til að gera rólega skokkið ennþá betra?
Finna til föt
Því miður er þetta partur af því að æfa á Íslandi. En þegar við veljum réttu fötin til að taka æfinguna þá verður hún líka miklu betri. Best er að geta haft húfu, hanska, peysu eða jakka sem hægt er að renna niður og jafnvel buff. Með þessu getum við stjórnað hitanum svo okkur verði ekki of heitt eða of kalt. Ef við erum svo með fötin á aðgengilegum stað, þá verður þetta ennþá auðveldara.
Liðkun
Það er alltaf góð hugmynd að taka sér 2-5 mínútur í að taka hreyfiteygjur og smá liðkun áður en við förum af stað. Það er mjög algengt að við miklum þetta fyrir okkur en bara það að rétt liðka vöðvana getur gert líkamann svo miklu klárari í hreyfingu. Þetta þarf hvorki að vera flókið eða langt, þannig um að gera að prófa sig áfram.
Virkjun
Virkjun er þegar við tökum smá styrktaræfingar eða spennum og slökum á vöðvum. Þetta er hægt að gera með stuttum framstigum, lyfta hnjám og spenna rass og með hliðarsveiflum. Þetta þarf ekki að taka meira en 2-3 mínútur en gerir vöðvana tilbúna svo fyrstu skrefin verði þægilegri.
Fara nógu hægt af stað
Eins og í öllu í lífinu þá gengur okkur betur ef við förum rólega af stað. Það er algjör snilld að geta byrjað á því að labba bara í 30-60 sekúndur og svo byrja að skokka ofurrólega og anda bara með nefinu. Eftir svona 3-4 mín erum við svo komin á venjulegan skokkhraða og þá er bara að njóta.
Til að byrja með getur þetta virst vera mikið en að taka til föt sparar okkur tíma og liðkun, virkjun og labb af stað tekur bara 3-4 mínútur í auka tíma en gerir æfinguna 7-8 sinnum skemmtilegri. Þegar við erum að fara á gæðaæfingar eða keppnir geta svo verið fleiri þættir sem þarf að huga að en við förum í þá síðar.
Comments