top of page

63.3 kílómetrar fyrir hádegi

Updated: Feb 26, 2022

Það er ekki eðlilegt að ætla að hlaupa 63.3 km, hvað þá að gera það fyrir hádegi. Miklu betra að sofa bara út og hafa það náðugt...

Eftir síðasta tímabil ákvað ég að taka þriggja vikna hvíldartímabil. Fannst ég þurfa á því að halda og vissi að það var hvort sem er langt í að næsta alvöru keppni færi fram. Svo gerðist það að Íslandsmótið í heilu maraþoni var sett á í lok október en því hafði verið aflýst með Reykjavíkurmaraþoninu. Ekki nóg með að Íslandsmótið í heilu maraþoni átti að fara fram þennan dag, heldur var Íslandsmótið í hálfu maraþoni sett á sama dag.

Þetta kveikti eitthvað í mér, tilhugsunin um að reyna að vinna níunda og tíunda Íslandsmeistaratitilinn á árinu en líka að sjá hvort ég gæti yfir höfuð hlaupið svona langa vegalengd. Ég ákvað því að skrá mig í bæði heilt, og hálft maraþon. Frábær hugmynd, ég veit...

Maraþonið fór af stað klukkan 08:00 á laugardagsmorgun og ég passaði mig að spara orkuna eins og ég gat. Endaði í fyrsta sæti á rúmlega 2:51 en þetta gaf mér sirka átta mínútur áður en Íslandsmótið í hálfu maraþoni væri ræst af stað.

Hvíla þreytta fætur í þessar átta mínútur sem voru á milli hlaupa.

Hálfa maraþonið fór virkilega vel af stað en fyrri hlutann hljóp ég á 35:49 sem hefði gefið lokatíma upp á 1:11:38 sem var á pari við þær væntingar sem ég hafði gert fyrir hlaupið. Allt kom fyrir ekki og eftir um það bil 59 km var tankurinn tómur, virkilega áhugaverð upplifun. Ég rúllaði samt í mark og get ekki verið annað en sáttur með að hafa klárað mitt lengsta hlaup á ævinni og að geta brosað meira og minna allan tímann.


Vefslóð á fréttainnslag hjá RÚV þar sem ansi mikil þreyta fékk á láta ljós sitt skína.


Endurheimtin

Núna nokkrum dögum eftir þetta eina og hálfa maraþon þá líður mér furðuvel í líkamanum. Vissulega vöðvaþreyta, en einungis á ákveðnum stöðum og þá aðallega framan á lærunum. Ég hef passað mig að hvíla, kæla, taka fæðubótarefnin mín (sérstaklega B-12 og járn frá NOW), nóg af próteini, svefni og nuddrúllu. Endurheimtin gerist ekki af sjálfu sér en í aðdraganda hlaupsins var ég búinn að passa upp á að vera duglegur að taka lyftingar á lappir sem ég veit að hjálpaði mikið því þú þarft einfaldlega mikinn styrk til að geta tekið á móti öllum höggunum. Að sama skapi hjálpa Nike Alphafly skórnir að taka á móti höggunum þar sem froðan er mýkri en í venjulegum keppnisskóm. Þetta er andstæðan við það hvernig keppnisskór voru hérna fyrir bara 7-8 árum.

Fiðringur í maga

Ég vissi eingöngu með um fjögurra vikna fyrirvara að Íslandsmótið í heilu og hálfu maraþoni færu fram sama daginn þannig vissulega hefði undirbúningurinn mátt vera betri. Hinsvegar myndi ég alltaf mæla með því að tækla þau verkefni sem gefa þér fiðring í magann. Jafnvel þótt þau virðist óyfirstíganleg í fyrstu, þá er það alltaf þess virði. Því þarna færðu að sjá hvað í þér býr.


bottom of page