Það er alveg sama hvort við erum að tala um afrekshlaupara eða fólk sem er nýta hreyfingu til að bæta heilsuna, öll þurfum við að hafa gott fólk í kringum okkur til að láta lífið ganga upp.
Hreyfing er lykilforsenda fyrir betri heilsu og lengra lífi en á það til að gleymast þegar við erum að leysa önnur verkefni dagsins. Til að passa að hún eigi sinn sess yfir vikuna þá held ég með því að gefa henni meiri tilgang verði þeim mun auðveldara að tikka inn æfingarnar.

Ekki bara þú
Mér finnst hlaupin vera frábær af því að það er auðvelt að stunda þau, það er hægt að setja sér gríðarlega fjölbreytt markmið og svo eru þau merkilega félagsleg þegar við förum í rólegan spjall-hlaupatúr. Þess vegna er mjög auðvelt að vera talsmaður fyrir ágæti hlaupa í rútínuna. Það er svo alveg magnað að fylgjast með fólki ná að tikka inn allar æfingar vikunnar og vera samt með tvö til þrjú börn og í fullri vinnu. Hvernig er þetta hægt er oft spurning sem fólk spyr sig sem hefur ekki komist upp á lagið með að halda hreyfingunni alltaf inni. Mín upplifun á þessu er að ekki nóg með að fólk sé heppið með fólkið í kringum sig, heldur er það líka að stunda hreyfinguna fyrir fólkið í kringum sig. Þegar við erum í virkri hreyfingu líður okkur betur og við þar af leiðandi erum betri heima við og í vinnunni. Árangurinn okkar er svo ekki bara hvetjandi fyrir okkur sjálf heldur eru miklu fleiri sem fá hvatningu frá okkar hreyfingu og markmiðum en við áttum okkur á.
Þegar þetta er erfitt - hugsaðu stærra
Þótt við sjálf séum andlega sterk, þá getur líka skipt miklu máli að hafa gott fólk í kringum okkur. Það er því áhugavert að spyrja sig eftirfarandi spurningar: Hvort myndirðu vilja vinna í leiðinlegustu vinnu í heimi með skemmtilegasta fólki í heiminum eða í skemmtilegustu vinnu í heimi með leiðinlegasta fólkinu? Samneyti við gott og skemmtilegt fólk hjálpar til þegar unnið er að einhverju sem er bæði líkamlega og andlega krefjandi. Samvinna er því atriði sem allir ættu að reyna að tileinka sér í sinni nálgun, hvort sem það er í íþróttum eða í lífinu. Það geta svo verið alls konar birtingarmyndir af samvinnu. Hvort sem það er að hafa þjálfara sem vinnur með þér að þínu markmiði eða að hafa æfingafélaga og skiptast á að leiða endurtekningarnar á æfingunum. Þetta getur líka birst í því að segja fólkinu í kringum þig frá þínum markmiðum og finna fyrir stuðningi þess. Þegar okkur líður eins og við séum að vinna að einhverju saman, þá auðveldar það okkur að takast á við andlegu hliðina.
Ég nota þetta mjög oft á erfiðum æfingum að hugsa um að ég sé ekki bara að gera þetta fyrir mig heldur líka fyrir þau sem trúa á mig eða eru mögulega að fylgjast með. Það er allt í lagi að teikna hlutina upp eins og þeir hafi eilítið meiri tilgang í raun þar sem það hjálpar okkur að gefa þetta auka prósent. Þín hreyfing skiptir miklu máli, ekki bara fyrir þig heldur líka fyrir fólkið í kringum þig.
Comentarios